04/10/2024 | Ritstjórn
Eldstæði smíðað í stálsmíði
Nemendur prófa eldstæðið
Nemendur í stálsmíði í áfanganum PLV2A05 hafa unnið að því undanfarið að smíða eldstæði. Þetta verkefni felst í því að valsa plötur og velja viðeigandi rör. Nemendur teikna útflatning og skera hann út með plasmaskurðarvél. Verkefnið reynir einnig á suðukunnáttu nemenda þar sem þeir sjóða stykkin saman.
Myndin af nemendum sýnir þegar eldstæðið var prófað fyrir utan skólann og þess má geta að það virkaði nákvæmlega eins og vonir stóðu til.
Nemendur í þessum áfanga fóru einnig nýlega í vettvangsferð til Marel þar sem þau fengu að kynnast ýmsum þáttum tengdum stálssmíði svo sem beygjuvél, laserskurði, róbótasuðu, glerblæstri og samsetningu stáleininga úr ryðfríu stáli. Allar þessar vélar eru tölvustýrðar og forritanlegar en einnig sáu nemendur aðstöðuna þar sem hönnun og teikning á framleiðslunni fer fram. Heimsóknin tókst sérlega vel og voru starfsmenn Marel mjög vel undirbúnir með svör á reiðum höndum. Þeim er þakkað fyrir frábæra kynningu.
Myndagallerí
Eldstæði nemenda