Líf í borgarholtsskóla

29/11/2024 | Ritstjórn

Pop-up markaður og kynning á fyrirtækjum í nýsköpun

Þessir nemendur seldu bakkelsi

Þessir nemendur seldu bakkelsi

Á þriðjudag og fimmtudaginn í liðinni viku fór fram Pop-up markaður á vegum nemenda í skapandi hugmyndavinnu (SKH3A05). Einnig tóku þátt nemendur úr nýsköpun (NÝS3A05) en þeir nemendur hafa unnið að því stofna fyrirtæki í kringum einhverja hugmynd sem tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Margt var í boði á pop-up markaðinum en þar var til dæmis hægt að láta spá fyrir sér, fá af sér teiknaða andlitsmynd, kaupa bakkelsi, notaðan fatnað, nælur eða plaköt. Allur ágóði af markaðinum rennur til Dýrahjálpar Íslands en hvert ár velja nemendur góðgerðarsamtök sem njóta góðs af ágóða þessa markaðar. Öll vinna hefur farið fram undir stjórn Flosa Jóns Ófeigssonar og Kristveigar Halldórsdóttur, kennara á listnámsbraut.

Fjögur fyrirtæki úr nýsköpun kynntu starfsemi sína á markaðinum en það voru Skipti, Sneyti, Ungmennasaga og Hittup. Skipti er vefsíða þar sem fólk getur skipst á flíkum sem það er hætt að nota. Sneyti er vefsíða þar sem hægt er að reikna út eldsneytiseyðslu og fundið besta verðið á eldsneyti. Ungmennasaga er hlaðvarp þar sem tekin eru viðtöl við ungt fólk af erlendum uppruna. Hittup er forrit til að tengja saman fólk með svipuð áhugamál, svipað og stefnumótaforrit nema fyrir vini. Unnur Gísladóttir, kennari, hefur haft yfirumsjón með nemendunum í nýsköpun.

Markaðurinn og fyrirtækin voru mjög flott en bæði nemendur og kennarar eiga hrós skilið fyrir hversu vel tókst til.